Sunday, July 18, 2004

Bólur

Þegar fyrri eigandi 99unnar tók hana til uppgerðar þá strípaði hann hana öllu lakki og sprautaði Ferrari rauða. Þessi sprautun hefur að flestu leiti heppnast nokkuð vel, og þá sérstaklega að teknu tilliti til þess að þar var ekki atvinnumaður á ferð. Þó hefur eitthvað ekki tekist alveg sem skildi því ansi víða má finna litlar bólur á lakkinu. Þessar bólur hafði ég hugsað mér að slípa niður með slípimassa eða fínum sandpappír og hafa svo ekki meiri áhyggjur af. Ég prófaði þetta svo í gærkveldi og komst þá að því að bólurnar eru ekki í litnum heldur í grunninum, þannig að þegar ég slípaði þær niður þá komu ljósir blettir í staðin, þ.e.a.s. grunnurinn blasti við þar sem áður var bóla. Þetta þíðir því að ég verð að láta sprauta eina umferð yfir hana þegar ég verð búinn að slípa niður allar bólurnar. Ég hef þó ekki stórar áhyggjur af því. Það eina sem ég þyrfti að taka af honum fyrir sprautun eru hurðarhúnanir og læsingarnar auk tveggja króm rista við útöndunina fyrir miðstöðina. Það ætti því ekki að verða neitt dýrt að láta sprauta hana þegar þar að kemur. Bara ein umferð af lit, og kanski glæra yfir. Ráðfæri mig við einhverja um það hvort rétt sé að láta glæra eða ekki.

Eftir ráðleggingar frá Kidda Kidd, Corvettu manni og tannlækni með meiru ætla ég þó að byrja á að klára allt annað en lakkið. Það væri nefninlega svo leiðinlegt að reka eitthvað í 99una ný sprautaða, og sú hætta er alltaf fyrir hendi þegar maður stendur í stórri yfirhalningu. Það verður því byrjað á að koma vélinni í gang og skipta um bremsur. En ég ætla að flytja bremsurnar úr túrbó GLEinum mínum yfir í 99una og fá mér nýrri bremsurnar í GLEinn (er alveg kominn tími á að auka aðeins við bremsurnar til móts við aflaukninguna). En hversvegna ætla ég ekki að fá mér nýrri bremsurnar í 99una líka? Jú vegna þess að þeim fylgir ný gatadeiling fyrir felgurnar og ég vil halda gömlu deilingunni til að geta fengið mér Inca eða Minilite felgur ef ég rekst einhversstaðar á þær.

Inca

Minilite

Friday, July 16, 2004

Ég tók mig til og þvoði 99 í dag.  Hún var alveg svakalega rykug, gluggarnir voru líka alveg sérstaklega skítugir.  Fór margar umferðir yfir þá með gluggaspreyi.  Næst er svo að þrýfa hana að innan, en það er soldil fýla í henni eftir að hafa staðið svona lengi.  Þetta verður annars allt á rólegu nótunum hjá mér til að byrja með.  Verð mest að hjálpa Birki þegar ég hef tíma, svona á meðan hann er í bænum allavegana.  Hann á það nú inni hjá mér ;)

Thursday, July 15, 2004

Komin heim

99 er komin í hús. Nóni og Birkir komu með mér að sækja hana áðan og dugði ekkert minna en aflmesti SAAB landsins í dráttinn. Ég smellti nokkrum myndum af henni þegar hún var kominn í hús (gleymdist að taka með myndavél þegar við fórum að sækja hana). Ætlunin er svo að vera duglegur að taka myndir af uppgerðinni. Það er svo gaman að skoða svoleiðis myndir.

Hér sést framendinn. Grillið er brotið (reyndar fylgja tvö brotin grill með), og þarf ég því að finna mér nýtt svoleiðis. Reyndar er fínt grill á 90 SAABinum sem við Birkir keyptum í parta um daginn, en það er ekki jafn flott og eldra grillið og ætla ég því að reyna að finna svoleiðis. Húddið er líka opið til hálfs þar sem festinguna fyrir það vantar líka.



Næst sjáum við svo bílstjórahurðina og vinstri hlið hennar.



Hér er svo afturhelmingurinn. JET A-1 miðinn við bensínlokið hefur einhver límt á hana þar sem hún stóð inni í flugskýli. En JET A-1 er olían sem þotuhreyflar ganga fyrir.



99an er auðvitað skoðuð, enda ekkert vit í að kaupa óskoðaða bíla.



Hún er ekkert ekin, varla búið að tilkeyra mótorinn! Enda þjappan fín á öllum sílindrum eins og sést á litla miðanum sem hefur verið stungið hjá mælinum.



Svo er hér loks ein mynd af þessu fína SAAB 99 merki sem er að finna á mælaborðinu.