Tuesday, December 14, 2004

Kominn tími á smá update. Ekki að ég hafi gert svo mikið, er búinn að vera að vinna eins og skepna (verður að búa til peninga svo maður geti keypt meira í SAABinn). Ég fór allavegana upp í Bílasmið og keypti hljóðeinangurn og teppi eins og ég sagði hér að neðan. Þau áttu víst ekki nema eina gerð af svörtu teppi, en það lítur ágætlega út og á ábyggilega eftir að sóma sér vel á gólfi 99unnar. Ég byrjaði að leggja hljóðeinangrunina strax um kvöldið eftir að ég keypti góssið, enda erfitt að halda aftur af sér þegar maður er með eitthvað svona nýtt og spennandi í höndunum. Það var nokkru erfiðara en ég hafði ímyndað mér. Aðalega reyndar sökum þess hvað ég var með slappan dúkahníf. Gekk svo mikið betur daginn eftir þegar ég var kominn með ný blöð í hnífinn. Rosalega er samt gaman að setja svona nýja hluti í SAABinn og sjá hann byrja að skríða saman. Skemmtileg tilbreyting frá því að vera alltaf að rífa og tæta. Þarf svo að kaupa kapla til að leggja í gólfið, ætla nefninlega að hafa rafgeyminn aftur í skott í 99unni líkt og í GLE. Svo þarf ég líka að kaupa bensínslöngu fyrir bensínið frá bensínþrýstingsstillinum. Ég er því strand með framkvæmdir inni í bílnum þar til ég get keypt það sem uppá vantar. Spurning um að koma við í Stillingu á leiðinni heim? :)

Monday, November 29, 2004

Teppi

Þrátt fyrir að ég hafi hreinsað sætin í 99unni þá er ennþá ólykt í henni. Ég tók því sætin úr henni og fór með upp í íbúð til að þrífa betur (t.d. undir þeim). Því næst losaði ég teppin úr henni og ætla ég að kaupa ný í hana á eftir. Þau sem voru í eru reyndar ónotuð, en þau eru bæði illa lyktandi og ekki nógu vel út skorin til að ég geti verið ánægður með þau. Auk þess sem ný teppi kosta ekki það mikið. Auk þess hefði ég hvort sem er þurft að losa upp á þeim til að leggja aðra bensínsslöngu aftur í tank (engin tilbaka slanga í blöndungsbílum).

Undir teppinu komu í ljós gúmmímottur sem væntanlega eru til að taka við bleitu sem óhjákvæmilega berst inn í bílinn í daglegri notkun. Ég veit nú ekki hversu mikið gagn er í þeim, en ég held ég leifi þeim nú samt að vera áfram. Þær fóru líka upp í íbúð í þrif, enda verulega ógeðslegar. Hræðilega lyktandi og rykugar. Þegar gúmmímotturnar voru komnar úr, kom í ljós að fyrri eigandi var ekkert að plata mig þegar hann sagðist hafa spraut að allan Saabinn. Hann hefur meira að segja sprautað tjörumotturnar á gólfinu :oD. Hann hefur svo í vandvirkni sinni smurt einhverri ryðvörn á gólfið og sett þunnt plast yfir. Þetta fynst mér nú vera einum of mikið af því góða og ætlaði ég að þrífa hana af, enda er hún öll klístrug og ógeðsleg. En eftir nokkarar tilraunir með missterkum hreynsiefnum hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það væri sjálfsagt alveg skaðlaust að hafa hana áfram í bílnum. Allavega skaðlausara en hreynsiefnin sem þyrfti til að ná henni úr.

Ferðinni er því heitið í bílasmiðinn upp á höfða núna eftir vinnu að kaupa hljóðeinangrun og teppi og hugsanlega jafnvel eitthvað til að klæða toppinn á píunni (hann er jafn illa lyktandi og restin af bílnum auk þess sem hann er allur kámugur eftir þessi 13 ár sem hann þó fékk að vera á götunni).

Sunday, November 14, 2004

Pælingar og ákvarðanir

Frá því að ég eignaðist 99una hef ég alltaf ætlað mér að kaupa á hana svuntu (eða spoiler) eins og kom á túrbó 99unum. Sjálfsagt er erfitt að nálgast þessar svuntur í dag, en þó er hægt að kaupa trefjaplast eftirlíkingu af þeim hjá SAS í bandaríkjunum. Hér er tildæmis ansi lagleg 99a með svona túrbó spoiler:



Birkir lét þó ekki sannfærast um ágæti túrbó spoilera. Hann vildi meina að svona 99ur væru (eins og aðrir Saabar) miklu flottari með Airflow spoilerum. Það var því ekki um annað að ræða en að leggjast í rannsóknavinnu. Ég hóf rannsóknina á Saabnet, nánar til tekið á 99 spjallborðinu. Sú leit leiddi mig fljótt yfir á þessa síðu en hér má sjá margar fallegar 99ur. Sumar með Airflow kitti, aðrar með turbo svuntu og sumar jafnvel með heimasmíðuðum kittum. Þar á meðal er þessi gullfallega airflow 99a. Það er að vísu búið að lækka hana alltof mikið fyrir minn smekk, auk þess sem hún er á of litlum dekkjum. Felgurnar eru samt flottar, enda samskonar og verða undir minni :)



Það var þessi mynd held ég sem átti mestan þátt í því að ég er núna kominn á band með Birki og er það því alveg ljóst að ég þarf að fá mér svona airflow kitt. Það er því ekki seinna vænna að fara að hringja í Scandium, en þeir eru víst hættir að framleiða þessi kitt og eru því bara að selja upp lagerinn sinn. Eina spurningin sem þá er eftir er því hvar maður eigi að finna peninga fyrir þessu. Best að fara að þreifa bak við sessurnar í sófanum.

Tuesday, October 12, 2004

Nýjar felgur

Fékk ábendingu um gott sett af felgum uppi í Vöku í gær. Brunaði þangað eftir vinnu og sá þá þessar líka fínu minilite felgur. Fór svo og sótti þær áðan og pungaði út 8000 kr. fyrir. Það verður held ég að teljast ágætlega sloppið. Þær verða svo glerblásnar og sprautaðar áður en þær fara undir, og þá verða þær að sjálfsögðu líka orðnar vel skógaðar.

Monday, September 27, 2004

Ryð hreinsun

Fékk kassa af varahlutum á föstudaginn. Var rukkuaður um alltof mikið í aðfluttningsgjöld, og til að toppa það þá vantaði eina öxulhosuna. Klemmurnar og feitin var í kassanum, en engin hosa. Vona að eEuroparts.com kippi því í liðinn án þess að vera með neitt vesen. Á reyndar ekki von á öðru, enda hafa þeir reynst mér vel.

Áður en partarnir fara undir bílinn þá ákvað ég að ryðhreinsa bremsurnar og fylgihlutina og klína svo hammerite á allt saman. Þrátt fyrir að ég sé að setja notaðar bremsur í SAABinn þá er samt engin ástæða til að hafa þær ryðgaðar og ljótar. Þegar hann verður svo kominn saman og í gang ætla ég að skoða að fara betur í útlitsleg smáatriði, svo sem að sandblása og dufthúða bremsurnar. En fyrst er að útvega partana og gera þá nógu góða til að nota fyrst um sinn.

En svo við snúum okkur nú aftur að ryðhreinsuninni sem er efni þessa pósts. Þetta er hið mesta púl. Mun erfiðara en ég hefði geta látið mér detta í hug. "Laust" ryð getur nefninlega verið andskoti fast. Ég eyddi um það bil þrem klukkutímum í að slípa, pússa og höggva, og er ekki enn búinn með svo mikið sem einar bremsur... og á þá ekki nema 7 eftir! (er að taka nýju bremsurnar fyrir 900 í leiðinni). Það er því útlit fyrir að ég eigi eftir að eyða næstu eftirmiðdögum hluinn bak við rykgrímu með hamarinn á lofti og sporjárnið í stálinu.

Tuesday, September 21, 2004

Loksins eitthvað að gerast

Eftir langa mæðu er loksins komin hreyfing á mann aftur. Pantaði slatta af nýju dóti í 99una um helgina og fæ þetta vonandi öðruhvoru megin við næstu helgi. Þetta á annars eftir að fara frekar rólega af stað hjá mér held ég. 900 bílinn þarf en smá vinnu áður en ég verð sáttur við hann. Það gengur ekki að þurfa alltaf að klöngrast yfir farþegasætið til að komast inn í hann. Vonandi dugir að skipta um ramman framan á honum til að laga það. Hef líka grun um að mótorpúðinn að framan sé orðinn laus. Þannig að helgin fer sennilega í að redda varahlutum og laga þetta. Eftir það ætti samt að gefst tími til að koma fjöðruninni á 99unni í gott lag. Eins og áður hefur komið fram þá er ég búinn að víxla frambremsunum milli 99unnar og partasaabsins, og á þá bara eftir afturhásinguna. En hún kemur þegar ég set 88+ hásinguna í 900 bílinn. Meira síðar.

Friday, August 27, 2004

Operation: Nýar bremsur, part III

Búinn hægrameginn. Hættur í kvöld. Gokart í rigningunni í fyrramálið og svo að rífa kúplingu úr 9000 spyrnuSAABinum. Á sunnudaginn er svo planið að skipta um bremsurnar bílstjóramegin. En nú er ég hættur í kvöld.

Operation: Nýjar bermsur, part II

Þetta er erfiðara en ég hélt. Eftir mikið streð er ég loksins búinn að ná bremsunum úr 99unni, hægramegin að framan. Spindilkúluboltarnir komu mér mikið á óvart og runnu úr eins og þeir hafi verið að bíða eftir því að losna. Sama má segja um róna (rónna?) á stýrisendanum. Stýrisendinn sjálfur var aftur á móti grjótfastur, og það sama má segja um handbremsubarkann. Hann sat pikkfastur þar sem hann kemur í gegnum bremsurnar. Þurfti mikið að berja og sprauta WD-40 og hita með bútan loga áður en mér tókst að berja þetta úr. Nú er bara eftir að tylla 90 bremsunum í 99una og öfugt. Ég þarf svo að versla nýjar spindilkúlur, stýrisenda og bremsuslöngur áður en ég geng endanlega frá þessu. Já og líka öxulhosur. Best að skipta um þær fyrst maður er með þetta allt í sundur á annað borð.

Operation: Nýjar bremsur

Í dag á að nota góða veðrið til að skipta um bremsur. Er búinn að rífa þær úr partaSAABinum hægramegin að framan. PartaSAABinn er SAAB 90 sem við Birkir keyptum um daginn. Hann er þessi í miðjunni, á flottu þriggjaarmafelgunum (sem voru einmitt ein af ástæðunum fyrir því að við keyptum hann á annaðborð).

Nú er að fara að taka gömlu bremsurnar úr 99unni og setja 90 bremsurnar í. Svo verð ég að setja 99 bremsurnar í partaSAABinn svo að hægt verði að draga hann í burtu. Eina sem ég er soldið hræddur um er að allir boltarnir í 99unni séu fastir. Enda er hún svo lítið ekin að það eru allar líkur til að þetta hafi aldrei verið tekið í sundur.

Saturday, August 07, 2004

ég var að átta mig á því að sennilega á fíni B mótorinn minn eftir að fara að pissleka olíu þegar ég verð búinn að koma honum í gang. Sbr. mótorinn hans Birkis. Pakkdósir eiga það víst til að harðna og verða lélegar með tímanum, og alveg sérstaklega séu þær látnar standa langtímum saman. 13 ár er langur tími, jafnvel þó vélin hafi verið sett í gang öðru hvoru. Það er því kominn tími til að ég taki endanlega ákvörðun um hvernig vél ég ætla að hafa í henni. Úrvalið er eftirfarandi:

Taka upp B mótorinn.
8 ventla H mótor í (með K-Jetronic innspítingu eða MegaSquirt)
8 ventla túrbó H mótor
16 ventla mótor (10,1:1)
16 ventla túrbó mótor (9:1)
16 ventla 10,1:1 túrbó mótor með MegaSquirt

Fyrir alla mótorana nema B mótorinn þarf að gera lítilsháttar breytingu á eldveggnum til að koma vatnsdælunni fyrir. Hafandi séð Nóna og Birki að verki með slípirokkinn og logsuðuvélina þá hef ég engar áhyggjur af því. Einnig væri að sumu leiti gaman að hafa orginal vélina í henni (ég verð að fara að finna nafn á 99una, endilega komið með tillögur).

8 ventla H mótor með mekanísku innspítingunni, væri mjög auðveld skipti og myndi passa beint undir vélahlífina þegar búið væri að gera vatnsdælu breytinguna (reyndar gæti ég líka keypt rafmagnsvatnsdælu og losnað þar með við að breyta eldveggnum, en þá þyrfti að koma henni fyrir og ég efast um að það myndi líta jafn vel út og að halda í orginal vatnsdæluna). Þetta yrði ca. 20 hestafla aukning.

8 ventla túrbó. Ég á enga svoleiðis, auk þess sem ég ef ég færi að fara túrbó leiðina þá kæmi ekkert nema 16 ventla til greina.

16 ventla án túrbínu. Lang sparneytnasta vélin. Ca. 30 hestafla aukning, auk þess sem hægt væri að hafa hana mjög fyrirferða litla með því að setja á hana MegaSquirt (eða aðra innspítingu með MAP skynjara). Snyrtileg lausn og góð aflaukning og bensínsparnaður að auki (ekki það að það skipti miklu máli fyrir svona fornSAAB). Gallarnir eru aftur á mót þeir, að þá þarf að redda soggreinum úr 16 ventla 900, eða láta smíða þær fyrir sig (ekki slæmur kostur reyndar, en sjálfsagt soldið dýr). Auk þess sem hugsanlega þyrfti að sérsmíða pústgreinar, ég veit hreinlega ekki hvernig þær passa ofan í 99 vélarúmið.

16 ventla túrbó. Ca. 80 hross fram yfir blöndungs vélina. Sömu vandamál og með 16 ventla án túrbó, og til viðbótar þarf að koma fyrir millikæli og sennilega skera meira úr boddýinu til að koma túrbínunni fyrir.

16 ventla 10:1 túrbó. Þó ég hafi aldrei keyrt svoleiðis þá held ég að ég geti fullyrt að þetta sé lang skemmtilegasta vélin. Með tog kúrfu á við meðal togara og hröðun til að flengja hvaða Imprezu sem er. Sömu vandamál og fyrir venjulegu 16 ventla túrbó vélina. Yrði að vera knúin MegaSquirt eða annari forritanlegri innspítingu. Gírkassabrjótur.

Ég ætla strax að útiloka báða orginal túrbó mótorana. Ef ég ákveð að hafa túrbínu þá yrði það 16 ventla 10,1:1 túrbó vél. Annað hvort allt eða ekkert í þeim efnum. Ef ég tek B mótorinn upp úr þá fer hann ekkert oní aftur. 15 kg þyngri en H mótorinn og svona þannig að ég held að það sé alveg ljóst að það kemur ekki til greina.

Þá stendur valið á milli þriggja mótora. Það er augljóst hver þessara mótora er mest cool, en nokkuð óljóst hversu mikið mál verður að koma honum fyrir. 8 ventla mótorinn er lang auðveldasta leiðin. Og ef ég færi að láta smíða fyrir mig soggreinar þá gæti ég alveg eins látið smíða fyrir mig pústgreinar og látið túrbínuna fylgja með. Þá eru eftir tveir.

Best að fara að skoða hversu mikið pláss er fyrir 16 vetnla túrbó í vélasalnum. Endanlegri ákvörðun frestað þar til búið er að gera frekari athuganir.

Að lokum ein mynd sem ég tók í gær.

Sunday, July 18, 2004

Bólur

Þegar fyrri eigandi 99unnar tók hana til uppgerðar þá strípaði hann hana öllu lakki og sprautaði Ferrari rauða. Þessi sprautun hefur að flestu leiti heppnast nokkuð vel, og þá sérstaklega að teknu tilliti til þess að þar var ekki atvinnumaður á ferð. Þó hefur eitthvað ekki tekist alveg sem skildi því ansi víða má finna litlar bólur á lakkinu. Þessar bólur hafði ég hugsað mér að slípa niður með slípimassa eða fínum sandpappír og hafa svo ekki meiri áhyggjur af. Ég prófaði þetta svo í gærkveldi og komst þá að því að bólurnar eru ekki í litnum heldur í grunninum, þannig að þegar ég slípaði þær niður þá komu ljósir blettir í staðin, þ.e.a.s. grunnurinn blasti við þar sem áður var bóla. Þetta þíðir því að ég verð að láta sprauta eina umferð yfir hana þegar ég verð búinn að slípa niður allar bólurnar. Ég hef þó ekki stórar áhyggjur af því. Það eina sem ég þyrfti að taka af honum fyrir sprautun eru hurðarhúnanir og læsingarnar auk tveggja króm rista við útöndunina fyrir miðstöðina. Það ætti því ekki að verða neitt dýrt að láta sprauta hana þegar þar að kemur. Bara ein umferð af lit, og kanski glæra yfir. Ráðfæri mig við einhverja um það hvort rétt sé að láta glæra eða ekki.

Eftir ráðleggingar frá Kidda Kidd, Corvettu manni og tannlækni með meiru ætla ég þó að byrja á að klára allt annað en lakkið. Það væri nefninlega svo leiðinlegt að reka eitthvað í 99una ný sprautaða, og sú hætta er alltaf fyrir hendi þegar maður stendur í stórri yfirhalningu. Það verður því byrjað á að koma vélinni í gang og skipta um bremsur. En ég ætla að flytja bremsurnar úr túrbó GLEinum mínum yfir í 99una og fá mér nýrri bremsurnar í GLEinn (er alveg kominn tími á að auka aðeins við bremsurnar til móts við aflaukninguna). En hversvegna ætla ég ekki að fá mér nýrri bremsurnar í 99una líka? Jú vegna þess að þeim fylgir ný gatadeiling fyrir felgurnar og ég vil halda gömlu deilingunni til að geta fengið mér Inca eða Minilite felgur ef ég rekst einhversstaðar á þær.

Inca

Minilite

Friday, July 16, 2004

Ég tók mig til og þvoði 99 í dag.  Hún var alveg svakalega rykug, gluggarnir voru líka alveg sérstaklega skítugir.  Fór margar umferðir yfir þá með gluggaspreyi.  Næst er svo að þrýfa hana að innan, en það er soldil fýla í henni eftir að hafa staðið svona lengi.  Þetta verður annars allt á rólegu nótunum hjá mér til að byrja með.  Verð mest að hjálpa Birki þegar ég hef tíma, svona á meðan hann er í bænum allavegana.  Hann á það nú inni hjá mér ;)

Thursday, July 15, 2004

Komin heim

99 er komin í hús. Nóni og Birkir komu með mér að sækja hana áðan og dugði ekkert minna en aflmesti SAAB landsins í dráttinn. Ég smellti nokkrum myndum af henni þegar hún var kominn í hús (gleymdist að taka með myndavél þegar við fórum að sækja hana). Ætlunin er svo að vera duglegur að taka myndir af uppgerðinni. Það er svo gaman að skoða svoleiðis myndir.

Hér sést framendinn. Grillið er brotið (reyndar fylgja tvö brotin grill með), og þarf ég því að finna mér nýtt svoleiðis. Reyndar er fínt grill á 90 SAABinum sem við Birkir keyptum í parta um daginn, en það er ekki jafn flott og eldra grillið og ætla ég því að reyna að finna svoleiðis. Húddið er líka opið til hálfs þar sem festinguna fyrir það vantar líka.



Næst sjáum við svo bílstjórahurðina og vinstri hlið hennar.



Hér er svo afturhelmingurinn. JET A-1 miðinn við bensínlokið hefur einhver límt á hana þar sem hún stóð inni í flugskýli. En JET A-1 er olían sem þotuhreyflar ganga fyrir.



99an er auðvitað skoðuð, enda ekkert vit í að kaupa óskoðaða bíla.



Hún er ekkert ekin, varla búið að tilkeyra mótorinn! Enda þjappan fín á öllum sílindrum eins og sést á litla miðanum sem hefur verið stungið hjá mælinum.



Svo er hér loks ein mynd af þessu fína SAAB 99 merki sem er að finna á mælaborðinu.