Tuesday, September 25, 2007

Ég lofaði myndum, og hér koma þær:


Ný hosa á hjöruliðnum og nýr stýrisendi.


Ný spindilkúla og nýr stýrisendi.

Planið er svo að klæða headlinerinn í vikunni og helst að koma honum aftur í bílinn fyrir helgi.

Monday, September 24, 2007

Löngu síðar

Eftir margra mánaða hlé er boltinn loksins farinn að rúlla aftur. Ég tók smá skurk í teppinu um daginn, svona rétt til að kynnast 99unni aftur. Það rifjaðist fljótlega upp fyrir mér að ég var búinn að sjá út að ég þyrfti að kaupa meira teppi til að geta klárað þetta. Fór svo upp í Bílasmið og komst þá að því að þetta teppi fæst ekki lengur hjá þeim. Það er því ekki um annað að ræða en að nota öðruvísi teppi í restina. Það verður að koma í ljós hvernig það kemur út.

Dreif mig svo í að græja nýja öxla, en ég hafði verið í vandræðum með að finna samsetningu sem virkaði. Eftir að hafa fengið öxla hjá Birki, gekk þetta eins og í sögu. Núna er SAABinn því komin aftur á hjólin með nýjar spindilkúlur og stýrisenda og öxla sem virka.

Reif niður headlinerinn áðan, en hann er það síðasta sem verður skipt um innan í bílnum. Vona að það dugi til að endanlega reka myglulyktina á brott. Keypti smá headliner efni til prufu í Bílasmiðnum og ætla að prófa að klæða hliðareiningarnar með því (þetta eru plöturnar sem eru fyrir ofan hilluna milli afturrúðunnar og sætisbaksins).

Myndir bráðum

Wednesday, December 21, 2005

Keypti aldrei þessa parta af Garðari, lét DI kassettuna bara nægja. Það er líka miklu meira kúl að vera með MegaSquirt og DI. En í millitíðinni er ég búinn að koma gömlu vélinni í gang. Var í vandræðum með að fá bensín úr bensíntanknum. Hélt að bensíndælan væri orðin svona slöpp, en hún reyndist sjúga af feiknakrafti þegar ég skellti slöngu úr henni í hálfslítraflösku af bensíni. Þessi hálfi líter dugði til að halda vélinni í gangi í ca. 2 mínútur og gjörsamlega fylla bílageymsluna af reik, en það er bara kúl. Ég ákvað því að prófa að kaupa svo sem einn brúsa af bensíni hella í tankinn á henni. Í þriðja starti (notaði startvökva á milli starta) náði dælan svo bensíni úr tanknum og vélin datt í þennan fína lausagang. Nú verður sko settur kraftur í að klára helvítis teppið, henda í hana sætunum og fara að sækja númerin. Spurning um að koma henni á götuna fyrir áramót? Jú það verður tekinn rúntur á SAAB 99 GL á gamlársdag, og það sem meira er, ég skora á Birki að gera það sama við sinn! SAAB rúntur á gamlársdag!

Tuesday, May 17, 2005

Alltaf þegar maður er kominn með gott plan þá rekst maður á eitthvað nýtt sem væri vert að skoða. Birkir bennti mér á þennan forláta 9000 CD sem væri hjá Garðari í Bílastáli. Ég fór reyndar þangað fyrst og fremst til að kaupa af honum spoilerinn og di kasettuna. Spoilerinn var reyndar seldur en kasettuna fékk ég. En svo fór ég að pæla. Afhverju ekki að taka allt rafkerfið úr bílnum, og túrbínuna og intercoolerinn að auki (þetta er sem sagt 2,0 túrbó með di og öllu) og nota það bara beint á 99 vélina (og þá að sjálfsögðu með 9:1 stimplum). Garðar vill fá þrjátíuþúsund fyrir allt saman sem er ekki slæmur díll þegar maður ber það saman við að MegaSquirtII kostar sjálfsagt svipað mikið hingað komið, og þá er eftir að kaupa túrbínu og intercooler. Reyndar veit ég ekkert í hvaða ásigkomulagi þessi túrbína er, en svoleiðis er það bara þegar maður kaupir notaða parta. Þessu er ég allavegana að velta fyrir mér í augnablikinu. Þannig yrði ég fljótari að koma bílnum á götuna, og slippi alveg við að mappa innspítinguna og svoleiðis. Ekkert athugavert við það heldur að vera með 16 ventla túrbó 99 með DI.

Því meira sem ég skrifa um þetta því betur líst mér á að kíla bara á þetta. Já ég held að ég stökkvi bara til (nema einhver komi með sannfærandi rök gegn þessu í millitíðinni). Verð bara að vera þess mun duglegri að við að græja Tanngnjóst (megasquirt'nSpark-Extra, pc og fleira gógæti).

Monday, March 21, 2005

Loksins eitthvað að gerast!

Þá er maður loksins kominn alminnilega af stað aftur. Svo ég byrji á að halda áfram þar sem síðasta pósti lauk, þá er ég búinn leggja bensínslöngu og rafmagnskapla í gólfið á 99unni, en á eftir að leggja teppið. En nóg um það. Helgin hefur farið í að rífa 9000 vélina og þrífa og gera fínt. Þetta hefur gengið nokkuð vel, en það er þó enn nokkuð verk fyrir höndum. Það verður þó sennilega að bíða fram yfir páska að byrja að setja saman, þar sem Birkir hertekur allt vinnuplássið hjá Nóna. Að vísu hefur verið svo rífandi gangur í þessu hjá honum síðustu daga, að maður veit aldrei nema maður fari að komast að. ;)

Ég er búinn að taka slatta af myndum og ef ég ræð einhverntíman fram úr þessum vandræðum sem ég hef verið með Apache þá má búast við því að ég hendi upp flottu myndaalbúmi. Þanngað til verðið þið bara að skoða annara manna albúm, t.d. fínu 99una hans Ragnars.

Tuesday, December 14, 2004

Kominn tími á smá update. Ekki að ég hafi gert svo mikið, er búinn að vera að vinna eins og skepna (verður að búa til peninga svo maður geti keypt meira í SAABinn). Ég fór allavegana upp í Bílasmið og keypti hljóðeinangurn og teppi eins og ég sagði hér að neðan. Þau áttu víst ekki nema eina gerð af svörtu teppi, en það lítur ágætlega út og á ábyggilega eftir að sóma sér vel á gólfi 99unnar. Ég byrjaði að leggja hljóðeinangrunina strax um kvöldið eftir að ég keypti góssið, enda erfitt að halda aftur af sér þegar maður er með eitthvað svona nýtt og spennandi í höndunum. Það var nokkru erfiðara en ég hafði ímyndað mér. Aðalega reyndar sökum þess hvað ég var með slappan dúkahníf. Gekk svo mikið betur daginn eftir þegar ég var kominn með ný blöð í hnífinn. Rosalega er samt gaman að setja svona nýja hluti í SAABinn og sjá hann byrja að skríða saman. Skemmtileg tilbreyting frá því að vera alltaf að rífa og tæta. Þarf svo að kaupa kapla til að leggja í gólfið, ætla nefninlega að hafa rafgeyminn aftur í skott í 99unni líkt og í GLE. Svo þarf ég líka að kaupa bensínslöngu fyrir bensínið frá bensínþrýstingsstillinum. Ég er því strand með framkvæmdir inni í bílnum þar til ég get keypt það sem uppá vantar. Spurning um að koma við í Stillingu á leiðinni heim? :)

Monday, November 29, 2004

Teppi

Þrátt fyrir að ég hafi hreinsað sætin í 99unni þá er ennþá ólykt í henni. Ég tók því sætin úr henni og fór með upp í íbúð til að þrífa betur (t.d. undir þeim). Því næst losaði ég teppin úr henni og ætla ég að kaupa ný í hana á eftir. Þau sem voru í eru reyndar ónotuð, en þau eru bæði illa lyktandi og ekki nógu vel út skorin til að ég geti verið ánægður með þau. Auk þess sem ný teppi kosta ekki það mikið. Auk þess hefði ég hvort sem er þurft að losa upp á þeim til að leggja aðra bensínsslöngu aftur í tank (engin tilbaka slanga í blöndungsbílum).

Undir teppinu komu í ljós gúmmímottur sem væntanlega eru til að taka við bleitu sem óhjákvæmilega berst inn í bílinn í daglegri notkun. Ég veit nú ekki hversu mikið gagn er í þeim, en ég held ég leifi þeim nú samt að vera áfram. Þær fóru líka upp í íbúð í þrif, enda verulega ógeðslegar. Hræðilega lyktandi og rykugar. Þegar gúmmímotturnar voru komnar úr, kom í ljós að fyrri eigandi var ekkert að plata mig þegar hann sagðist hafa spraut að allan Saabinn. Hann hefur meira að segja sprautað tjörumotturnar á gólfinu :oD. Hann hefur svo í vandvirkni sinni smurt einhverri ryðvörn á gólfið og sett þunnt plast yfir. Þetta fynst mér nú vera einum of mikið af því góða og ætlaði ég að þrífa hana af, enda er hún öll klístrug og ógeðsleg. En eftir nokkarar tilraunir með missterkum hreynsiefnum hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það væri sjálfsagt alveg skaðlaust að hafa hana áfram í bílnum. Allavega skaðlausara en hreynsiefnin sem þyrfti til að ná henni úr.

Ferðinni er því heitið í bílasmiðinn upp á höfða núna eftir vinnu að kaupa hljóðeinangrun og teppi og hugsanlega jafnvel eitthvað til að klæða toppinn á píunni (hann er jafn illa lyktandi og restin af bílnum auk þess sem hann er allur kámugur eftir þessi 13 ár sem hann þó fékk að vera á götunni).